144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þessi sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir koma í raun fram í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. þau að það sé jákvætt að bjóða upp á meiri sveigjanleika í starfi og fleiri tækifæri til starfsþróunar, að fólk geti skipt um starfsvettvang o.s.frv.

Stéttarfélögin hafa lýst yfir áhyggjum af því að starfsmaður sé í raun ekki í stöðu til að velja og hafna, að þetta samtal sé ekki í gangi sem gefið er til kynna að eigi að vera fyrir hendi áður en flutningur er ákveðinn, heldur sé það þannig að starfsmönnum sé skákað til og frá. Mér finnst full ástæða til að hlusta á þau sjónarmið sem koma fram bæði hjá BHM og BSRB og fleiri stéttarfélögum og koma reyndar líka fram í nefndaráliti minni hluta.

Mér finnast vangaveltur þingmannsins um einhvers konar sameiginlegan vettvang sem heldur utan um þessi mál og hefur yfirsýn yfir þau þess virði að þær séu skoðaðar.