144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og tek undir margt ef ekki flest af því sem hann talaði um. Mér sýnist 1. gr. frumvarpsins hvað umdeildust og sú sem við í minni hlutanum höfum miklar áhyggjur af.

Hugmyndin er að ráðherra fái þetta vald og þurfi í rauninni ekki að spyrja þingið ef hann ætlar að breyta staðsetningu stofnana, eða lögheimili eða hvað við köllum það. Það getur verið um að ræða að menn flytji stofnanir af landsbyggðinni og til Reykjavíkur, þó að við tölum kannski ekki um það eru nokkrar stofnanir á landsbyggðinni sem einhver ráðherra gæti ákveðið að ættu betur heima í Reykjavík, og svo getur það verið á hinn bóginn líka. Spurningin er hvort ekki sé eðlilegra að þingmenn sem eru kosnir og sækja í raun umboð sitt beint til þjóðarinnar hafi síðasta orðið í þessu, frekar en ráðherra sem situr í umboði þingsins og er ekki kosinn beint til starfans. Við höfum upplifað að það eru kannski þrír ráðherrar á einu kjörtímabili og þeir geta hver haft sína skoðun á því hvort og hvar einhver stofnun eigi að vera. Spurningin er hvort hv. þingmanni finnist ekki eðlilegra að þingið taki þessar ákvarðanir og þá er umræða um málið, í stað þess að ráðherra sé einráður í því. Er ekki verið að flytja allt of miklar valdheimildir til ráðherra?

Fyrir utan það eru þetta ekki mál sem gerast oft og ætti aldrei að þurfa að taka ákvörðun í snarhasti. Það að það taki einhvern smátíma að fara í gegnum þingið ætti ekki að vera neinn faktor í því sambandi.