144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mjög fljótt í ljós — þegar við vorum að skoða annars ágæta hugmynd um að færa saman Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun og reyna að þróa umgjörð í kringum það, búa til ný lög og nýja menntamálastofnun — að í fyrsta lagi var búið var að ráða forstöðumann áður en nokkur lög höfðu verið sett um stofnunina. Það var gert eftir krókaleiðum með því að forstöðumaður væri settur yfir tvær stofnanir og reynt að fara á svig við þetta svo að viðkomandi yrði að undirbyggja það.

Í öðru lagi gáfu menn sér ekki tíma til að skilgreina verkefni þessara stofnana. Við gagnrýndum það, ég og hv. þingmaður, meðal annars í allsherjar- og menntamálanefnd. Þarna er um að ræða Námsgagnastofnun sem hefur fyrst og fremst farið með námsgögn í grunnskólum. Það er í raun svolítið merkilegt vegna þess að grunnskólarnir heyra undir sveitarfélögin. En löggjöfin í kringum námsgögn á framhaldsskólastigi — ríkið er ekkert að setja reglur um það, það er ekki að setja neina umgjörð um það. Það á bara að koma seinna og það á þessi stofnun að þróa.

Þetta er annað dæmi um að menn séu að flýta sér, þetta er hugmynd sem hefur legið á borðinu og nú á bara að drífa þetta áfram og sameina stofnanirnar, en ekki er farið í vandaða vinnu og skilgreiningar. Að vísu kom fram að mikil vinna hefði verið unnin. Og það vakti svo athygli mína, þegar við fórum að hlusta á rökin — jú, þau voru fín, það var ekkert að þeim í lögunum. Þetta var eiginlega praktísk sameining, en það var kallað að leggja niður stofnunina og stofna nýja til þess að sniðganga réttindi starfsmanna.

Þetta er ágætisdæmi um mál sem hefur marga galla í framkvæmd en þyrfti ekki að vera í ágreiningi og þyrfti ekki að vera í átakaferli; mál sem er óttalegt klúður ef maður fer að skoða það. Hugsanlega er þó hægt að bjarga því, það getur verið að góður forstöðumaður taki þessi stofnun að sér og bjargi henni, en aðferðafræðin er ekki góð.