144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta síðasta þá held ég að það sé mikilvægt að menn leggi fram hugmyndir og áætlanir í formi þingsályktunartillagna eða með því að leggja fram hvítbók eða eitthvað slíkt. Þar kæmi þá fram hvað menn langar að gera eða skoða. Síðan yrði fjallað um málið í þinginu, athugasemdir yrðu settar fram og umsagnir og síðan færi framkvæmdarvaldið í að framkvæma í framhaldi af því. Þannig fengi framkvæmdarvaldið bakgrunn frá þinginu til að byrja að framkvæma. Síðan kæmi málið í lagaformi inn í þingið þegar allt væri búið.

Dæmi um þetta er ríkisfjármálaáætlun, sem virðist að einhverju leyti ætla að klúðrast á þessu þingi en viðleitnin í þessa átt er út af fyrir sig góð. Á sama tíma er verið að henda út ýmsum öðrum áætlunum. Menn eru að eyðileggja rammaáætlunina sem er í raun hugmynd um það sama, að búið sé að ákveða ferlið, búið sé að ákveða hvernig eigi að fjalla um mál og þoka þeim áfram þannig að það sé í formlegu ferli. Annað var kerfisáætlunin sem að hluta til tókst að bjarga fyrir horn, en upphaflega átti að sniðganga slíka áætlunargerð hvað varðar raflínur í landinu.

Hv. þingmaður kom inn á annað vandamál og ég spyr að sama skapi: Hvað er ráðuneytið og hvað eru stofnanir undir því? Ég verð að viðurkenna, og ég hef sagt það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að mörg þeirra mála sem við fáum, varðandi það að færa verkefni frá ráðuneytum til stofnana, eins og Menntamálastofnunar, bera þess merki að verið er að svelta ráðuneytið. Þegar ráðuneyti er svelt fara að koma tillögur frá því um að færa út verkefni og þá á stofnunin að fá peninga til að bjarga ráðuneytinu. Það er ekki góð stjórnsýsla.

Það var heldur ekki góð stjórnsýsla þegar menn sögðu í sambandi við Þróunarsamvinnustofnun: Við ætlum að færa hana inn í ráðuneytið, þá getum við nýtt eitthvað af starfsfólkinu okkar. Við svíkjum hugmyndir um fagleg vinnubrögð, mikla reynslu og þekkingu varðandi þróunarsamvinnumál og drögum stofnunina inn í ráðuneytið, inn í hít í utanríkisþjónustu sem hefur ekkert með málaflokkinn að gera.

Það þarf að vanda vel til verka. Þetta eru dæmigerðir hlutir sem þarf að ræða á þinginu og gott að við gefum okkur tíma til þess að gera það.