144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og ítreka einmitt það að mér finnst svo einkennilegt að núna, nokkrum árum eftir fullkomið skipbrot íslensku þjóðarskútunnar og mikið vantraust á stjórnsýslunni, ekki síst stjórnmálamönnum, og þrátt fyrir mjög mikla vinnu og úthugsaða löggjöf, ég er alveg sannfærð um að það má bæta hana, eigi að nema hana úr gildi, það er hættulegt, og að það skuli gert án þess að fyrir því skuli vera færð rök.

Það er líka svolítið merkilegt að ríkisstjórn, þar sem einn ráðherra hefur þurft að fara, annar hefur lent í stormviðri vegna tengsla sinna við ákveðið fyrirtæki, skuli leggja þetta til án þess að roðna. Og kannski er hæstv. forsætisráðherra ákaflega feginn að þurfa ekki að gefa okkur skýrslu samhæfingarnefndar á þessu þingi, það er kannski bara léttir og kannski bara best að losna við hana, ég veit það ekki.

Hitt er annað mál að ég veit ekki betur en að hún sé ekki að störfum, þessi nefnd, enda er skipunartími hennar liðinn. Ég held að allir sem aðeins hugsa þetta mál og skoða greinargerðina með frumvörpunum frá 2010 og 2011 hugsi sig kannski tvisvar um áður en þeir samþykkja að leggja þessa nefnd af, nema við viljum (Forseti hringir.) hverfa aftur frá markmiðunum um betra siðferði í opinberri stjórnsýslu.