144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi eru að lagðar til breytingar á Stjórnarráðinu sem miða að því að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins við að skipuleggja störf. Fram kemur að heimilt verði að setja á fót starfseiningar og ráðuneytisstofnanir innan ráðuneytisins og að horft sé til þess að sameina rekstur ráðuneytisins og einstakra stjórnsýslustofnana sem fái stöðu ráðuneytisstofnunar.

Í því samhengi langar mig að heyra viðhorf hv. þingmanns. Við þekkjum það að gagnsæi er grundvöllur þess að almenningur geti veitt stjórnvöldum aðhald. Meginreglan er sú að auglýsa eigi opinber störf og er það byggt á þessum sjónarmiðum um gagnsæi. Þar á að gæta jafnræðis og þess að hæfasti umsækjandinn sé ætíð ráðinn til starfa. Hérna er lögð til heimild til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta. Fram kemur að í því skyni sé lagt til að í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði bætt ákvæði sem heimilar flutning starfsfólks milli stjórnvalda án þess að störfin séu auglýst laus til umsóknar. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa. Þetta hefur verið gagnrýnt af stéttarfélögum og þó að þetta eigi að vera gert með vilja forstöðumanna og viðkomandi starfsmanns þá er auðvitað alltaf ákveðinn þrýstingur á ferð. Er þetta eitthvað sem þyrfti að skoða betur?