144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það sem kannski hefur verið umdeildast í frumvarpinu, ásamt öðru þó, eins og siðareglum, er heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra án þess að fara með það fyrir Alþingi. Við þekkjum fiskistofudæmið sem hefur brunnið á mönnum og er núna í ákveðnum farvegi og ráðherra hefur dregið í land með. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður telji að það þurfi að vera einhver opinber stefnumörkun í þessum málum, hvar mögulegt sé að flytja verkefni út á land eða hugsanlega stofnanir. Þetta hefur að hluta verið á hendi ráðherra í gegnum tíðina þar sem fram kom í lögum að það væri á valdi hans, en það datt út árið 2011 og síðan hefur það verið Alþingis að ákveða slíkt.

Finnst hv. þingmanni ekki vanta faglega úttekt á því hvaða svæði hafi styrk til að taka við ákveðnum tegundum stofnana? Það er auðvitað mismunandi eftir svæðum hvað hentar, hvað fellur vel að t.d. þeirri atvinnu, menningu og grunngerð sem er í viðkomandi samfélagi. Þetta má ekki gera handahófskennt, eftir duttlungum ráðherra hverju sinni, og fyrst og fremst þarf að fjalla um það lýðræðislega innan Alþingis. Ættum við ekki að reyna að leggja fram stefnumótun og opinbera stefnu í þeim málum, vanda til verka og koma í veg fyrir þá togstreitu milli höfðuðborgarsvæðisins og (Forseti hringir.) landsbyggðarinnar sem alltaf fer í gang þegar þessi mál eru rædd?