144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Ég held að það sé mikið til unnið að við reynum að vinna þannig að við minnum okkur á og gerum það í þeim anda að við erum öll í sama báti. Landsbyggð væri lítils virði án höfuðborgar og höfuðborg væri lítils virði án landsbyggðar.

Hvað þarf til að fólk vilji búa einhvers staðar? Það þarf möguleika, það þarf góða skóla, það þarf góða heilbrigðisþjónustu og fjölbreytta atvinnu. Þá er auðvitað mikilvægt að góð atvinnutækifæri séu fyrir alla, fólk með háskólamenntun, fólk með alls kyns sérþekkingu og reynslu úr sinni heimabyggð og slíkt, það þarf að vera fjölbreytt. Þá getur skipt máli að stuðlað sé að því að byggðar séu upp einingar, það þurfa ekki að vera heilu stofnanirnar en einingar úr stofnunum, jafnvel heilar stofnanir. Ég vil í því sambandi segja að hafa þarf í huga að stofnunin sem í hlut á eða einingin sem í hlut á verður að vera samkeppnishæf um starfsfólk, huga þarf að því að það sé staðsett þannig að þangað ráðist rétt tegund af starfsfólki og slíku.

Við eigum að vera mjög metnaðarfull þegar kemur að byggðastefnu. Ég tel að við eigum að víkka út hlutverk sóknaráætlanna. Þar er það líka að þegar svæði sameinast um hvaða áherslur þau ætla að leggja verður auðveldara að ákvarða hvers konar tegund af störfum þarf, hvað sé nauðsynlegt til að ná þessum markmiðum. Á þann hátt er hægt að taka ákvörðun um hvar opinber störf eru staðsett.