144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja í upphafi þessarar annarrar ræðu minnar um þetta mál að mér finnst umræðan hafa verið mjög góð. Mér finnst hún stöðugt hafa verið að dýpka, ef svo má að orði komast. Þingmenn varpa ljósi á hluti sem okkur voru ekki öllum ljósir áður og málið er í heild sinni að skýrast í hugum okkar. Það veldur því að ég er vissari í minni sök en nokkru sinni að þetta mál á að bíða, við þurfum að ræða það miklu betur. Það eru svo mörg álitamál þarna inni sem eru óútkljáð.

Þegar við hófum umræðu um þetta frumvarp um Stjórnarráð Íslands staðnæmdust menn fyrst við 1. gr. laganna einfaldlega vegna þess að menn þekktu tilefni þess að frumvarpið var fram komið. Það var flutningurinn á Fiskistofu sem ráðherra hafði staðið þannig að að það var bæði ósanngjarnt og sennilega löglaust. Og með þessu frumvarpi eru menn að skjóta lagastoð undir þessar ákvarðanir ráðherrans. En í 1. gr. segir einmitt, með leyfi forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Með öðrum orðum, verið er að veita ráðherranum heimild til að fara sínu fram.

Komið hefur fram við þessa umræðu að það er í sjálfu sér enginn að ræða þetta tilefni sem slíkt, þ.e. Fiskistofu, að öðru leyti en vinnubrögðunum og framkomunni við starfsfólkið. Það heldur því heldur enginn fram að það megi aldrei flytja ríkisstofnanir. Menn hafa mismunandi skoðanir á því hvernig standa eigi að slíku, en allir eru um það sammála að fyrir slíkum flutningi eigi að koma fram málefnalegar ástæður. Menn eiga að hafa farið í gegnum fjárhagslega þætti málsins og faglega þætti málsins, við erum öll sammála um það.

Ef það er nú þannig að þingið er allt sammála um að það sé leyfilegt og eigi að vera leyfilegt að flytja stofnanir að uppfylltum tilteknum skilyrðum, hvers vegna fáum við slíkt ekki í þingið? Um það stendur þessi deila. Á þingið að koma að slíkum ákvörðunum eða á það að vera í valdi eins ráðherra?

Flestir sem hafa tjáð sig um málið hér eru á því máli að þingið eigi að hafa þarna aðkomu. Síðan hafa komið fram ýmsir vinklar á þessu máli sem vert er að huga að. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á að í samtímanum og að öllum líkindum í framtíðinni mun staðsetning starfa skipta minna máli eftir því sem tækninni fleygir fram. Hún nefndi dæmi um slíkt, ég held að hún hafi nefnt Umhverfisstofnun sérstaklega, og það er alveg rétt. En auðvitað skiptir staðsetning starfsemi máli fyrir einstaklinga ef það á að taka þá og flytja þá með heimili sínu landshorna á milli, það er önnur saga. En það er það sem um var að tefla í þessu tiltekna máli og þá ræðum við með hvaða hætti við eigum að standa að slíkri ákvarðanatöku.

Menn hafa verið að taka dæmi um breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum þar sem hefur tekist bara bærilega til. Hér var nefnt dæmið af embætti ríkisskattstjóra, við getum tekið dæmi af lögregluembættunum og sýslumannnsembættunum þar sem ákveðið var haustið 2010 að engir flutningar eða breytingar ættu sér stað næstu fimm árin, næsta hálfa áratuginn. Það mundi gerast í fyrsta lagi 1. janúar 2015, og þannig fór, deilulaust. En að sjálfsögðu hafði allt logað í deilum fram að því að slakað var á hvað það snertir.

Ég held að í tímans rás hafi stjórnsýslan og pólitíkin gert ýmis mistök, og það er kostulegt að hlusta á umræðuna nú þar sem sá sem sagði eitt í gær segir annað í dag og hefur orðið ákveðin kúvending í viðhorfum í þessum sal eftir því hvort menn hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég held að við eigum ekkert að staðnæmast við það. Við eigum að reyna að læra af mistökum sem við höfum mörg gert, við kollektíft, stjórnsýsla eða stjórnmál, og reyna að draga rétta lærdóma af mistökum okkar. Þá staðnæmist ég við það fyrst og fremst að það er heillavænlegt að láta þingið koma að þessu og tryggja með því að málefnaleg rök séu færð fyrir flutningi á stofnunum.

Það er útgangspunkturinn í þessari umræðu. Síðan hafa menn litið á 2. gr. frumvarpsins sem snýr fyrst og fremst að orðalagi og hafa engir eða fáir gert athugasemdir við það.

Síðan kemur að 3. gr. Ég er farinn að hallast að því að það sé kannski mikilvægasta greinin í frumvarpinu, ég held raunar að hún sé mikilvægasta greinin í frumvarpinu. Mig langar, með leyfi forseta, til að lesa þessa grein og síðan skýringuna sem fram kemur í frumvarpinu á henni.

Greinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo: “ — Og við erum að tala um 9. gr. laganna sem hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra getur ákveðið, með samþykki ríkisstjórnar, að skipa ráðherranefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka.“

Sem sagt, við ræðum hér hvað forsætisráðherra getur ákveðið varðandi einstakar nefndir, einstakar ráðherranefndir.

Síðan segir í breytingartillögunni, með leyfi forseta:

„Auk ráðherranefnda sem starfa á hverjum tíma samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra, sbr. 1. mgr., skulu ávallt vera starfandi ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um efnahagsmál. Forsætisráðherra og sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins eiga fast sæti í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Forsætisráðherra og sá ráðherra sem fer með málefni hagstjórnar og fjármálastöðugleika eiga fast sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál. Að öðru leyti gilda sömu reglur um ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál og um aðrar ráðherranefndir skv. 1. mgr.“

Þetta segir í sjálfum lagatextanum og vík ég þá að umsögninni í frumvarpinu um þessa grein, með leyfi forseta:

„Við setningu núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands var í fyrsta sinn kveðið á um skipun ráðherranefnda í lögum en slíkar ráðherranefndir hafa m.a. lengi verið starfandi á vettvangi ráðuneyta í Danmörku og eru mikilvægur samráðsvettvangur fyrir ráðherra og ráðuneyti. Ráðherranefndir í mismunandi formi eiga sér þó lengri sögu og þá einkum ráðherranefnd sem fjallað hefur um ríkisfjármál, undirbúning fjárlaga og fjáraukalaga, framkvæmd fjárlaga o.fl. Með ákvæðinu er lagt til að ráðherranefnd um ríkisfjármál annars vegar og ráðherranefnd um efnahagsmál hins vegar verði festar í sessi með lögum.“

— Og munum það að við erum þarna að tala um ákvarðanir forsætisráðherra sem við erum auk þess að festa þarna niður með lögum hvað varðar þessar tilteknu nefndir.

Áfram held ég, með leyfi forseta:

„Tillagan er sett fram í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfrækslu nefndanna og mikilvægis þeirra við samhæfingu í Stjórnarráði Íslands á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála. Tillagan er jafnframt sett fram í samhengi við fram komið frumvarp til laga um opinber fjármál“ — hlustið eftir þessu — „en samkvæmt þeim tillögum sem þar eru settar fram munu ábyrgð og valdheimildir ráðuneyta þegar kemur að framkvæmd fjárlaga aukast umtalsvert sem aftur kallar á aukna samhæfingu og samráð innan Stjórnarráðsins. Lögfesting ráðherranefnda um ríkisfjármál og efnahagsmál er jafnframt í samræmi við meginniðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem áhersla er lögð á mikilvægi samstarfs og upplýsingastreymis þvert á ráðuneyti, ekki síst á sviði efnahagsmála, og að slíku samráði sé búin formleg umgjörð með skráningu gagna og fundargerða. Með ákvæðinu er lagt til að formlegt samstarf og samhæfing milli ráðuneyta verði fest enn frekar í sessi sem og upplýsingagjöf milli ráðuneyta.“

Og lýkur þar umsögninni í frumvarpinu um 3. gr.

Hér er vísað í reynsluna. Ég er ekki viss um að þar sé farið rétt með. Þegar talað er um mikilvægi þess að samráð sé haft á milli þeirra sem sitja við stjórnvölinn í Stjórnarráðinu er verið að þrengja það samráð, vegna þess að eðli máls samkvæmt situr ekki öll ríkisstjórnin, allir ráðherrar eða allir málaflokkar í þessum nefndum sem eiga að fara með ríkisfjármálin og efnahagsmálin. Og af því að ég hef ekki ótakmarkaðan tíma vísa ég í mjög góðar röksemdir sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir setti hér fram um eðli hins íslenska stjórnvalds, sem ekki er fjölskipað, að það vantar inn í allan grunn.

Ég hallast að því, hæstv. forseti, að þetta sé kannski vanhugsaðasti þáttur þessa frumvarps en jafnframt einn mikilvægasti. Eins og við getum breytt 1. gr. þegar búið er að koma vitinu fyrir menn hvað það snertir, eða að fá menn til að hugsa það mál aðeins betur, svo ég sé nú kurteisari. En hér er verið að gera grundvallarbreytingar í átt til miðstýringar og ég vara mjög eindregið við því.

Þetta gæti ég haft mörg fleiri orð um. Síðan er 6. greinin, þar er talað um að það eigi vera heimilt að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir og gera skipulagsbreytingar í ráðuneytum, sem er í rauninni allt af hinu góða. En aftur er það mjög óljóst. Átti ég að hafa heimild til að setja á fót happdrættisstofu á vegum ráðuneytisins? Ég spyr. Samkvæmt þessu mætti túlka textann á þann veg. Mér fannst það mjög misráðið af Alþingi að koma í veg fyrir að sá ásetningur minn næði fram að ganga. En engu að síður hefði mér ekki þótt það rétt. Mér finnst rétt að Alþingi komi að slíkum ráðstöfunum.

Að lokum, hæstv. forseti. Ég er búinn að fjalla ítarlega um siðanefndina sem verið er að setja af, en mig langar til að koma að henni aftur í lokin í öðru samhengi, sem ég hef reyndar gert hér áður í andsvari. Talað er um aukinn sveigjanleika, talað er um mikilvægi þess að hægt sé að flytja starfsþætti og starfsmenn milli ráðuneyta og stofnana, og tekið er fram að það skuli gert í samráði og samkvæmt vilja stjórnenda og starfsmannanna sjálfra. Er það ekki gott? Jú, þetta er mjög gott. En menn hafa jafnframt verið að vara við því að frelsið til að gera það geti snúist upp í andhverfu sína og að fólk verði þvingað til þess að lúta forsjárvaldi ef það ætli að halda starfi sínu.

Sömuleiðis hef ég alltaf efasemdir þegar verið er að tala um fagmennsku við ráðningu. Við vitum öll að það geta verið sprenglærðir menn sem uppfylla alla kvarða en eru gagnslausir til tiltekinna starfa. Og þar kemur hið huglæga inn, við vitum öll að tiltekinn einstaklingur sem ekki hefur tiltekna menntun, og það var nú lengi svo að það var auglýst að forstöðumenn í ríkisstofnunum þyrftu að hafa háskólamenntun, þeir máttu sækja um starfið ef þeir höfðu próf í dönsku eða þýsku eða grísku, en ekki ef þeir höfðu reynslu af einhverju allt öðru sviði. Það er náttúrlega fornfáleg hugsun sem er víkjandi. En engu að síður er hún þarna. Litið er til lengdar menntunar og titla þegar verið er að ráða í störf og það er kallað fagmennska, er það ekki? Og þá er oft gengið fram hjá fólki sem er og allir vita að er betur til þess fallið að sinna störfunum. Og hvað er þetta kallað þetta huglæga? Geðþótti, það er geðþótti.

Þá stöndum við frammi fyrir því að við höfum annars vegar réttindin og faglegu viðmiðin, sem við viljum í heiðri hafa, og hins vegar hið huglæga, að geta tekið tillit til þess. Hverju þurfum við þá á að halda? Siðareglum. Við þurfum umræðu um hvernig við eigum að bera okkur að. Og þess vegna er mikilvægt að hafa það starf viðvarandi og lifandi, munurinn á því að setja þetta sem nánast dauðan bókstaf inn í forsætisráðuneytið annars vegar og hins vegar hinu að kalla til fulltrúa stéttarfélaga, forstöðumanna stofnana og utanaðkomandi aðila eins og frá Háskóla Íslands, sem sérhæfa sig í að (Forseti hringir.) afla upplýsinga um slíka hluti, hvernig næra eigi heilbrigða skynsemi innan stjórnsýslunnar. (Forseti hringir.) Það er grundvallarmunur á þessu tvennu. Og það er þess vegna og í þessu ljósi sem það er mjög misráðið að leggja þessa nefnd af.