144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svar mitt er já. Ef við hrintum af stað endurskoðun á starfsmannastefnu sem fæli í sér að við styrktum stöðu stéttarfélaganna innan stjórnsýslunnar, sem tryggði að samræður af þessu tagi um flutninga færu ekki fram á persónulegum nótum heldur kæmu stéttarfélögin að slíkri umræðu og fjarlægðu einstaklinginn svolítið frá svokölluðum yfirmanni eða stjórnanda og þetta væru jafn réttháir einstaklingar sem ræddust þarna við þá hefði ég ekkert á móti því, alls ekki. Það er gott að starfsemin geti verið sveigjanleg og hægt sé að færa verkefni og starfsfólk til, ef það er gert á jafnréttisgrunni og með eðlilegum hætti er ekkert að því. En stéttarfélögin vara við því og segja að þau (Forseti hringir.) hafi ekki land til að standa á rétti fólksins.