144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í rauninni vil ég taka undir þessa dulbúnu gagnrýni á okkar eigin afurð, sem er minnihlutaálitið, að við hefðum getað vikið betur að þættinum með ráðherranefndirnar, við hefðum getað farið betur í saumana á því. En þetta eru hlutir sem eru að skýrast betur við umræðuna um málið.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við eigum að freista þess að taka umræðu um það í nefndinni hvort ekki væri hyggilegt og til góðs að skjóta málinu á frest, setja það á ís og vinna það betur í haust, hugsa þætti þess betur. Ég held að um þetta mál þurfi í ekki að vera pólitískur eða flokkspólitískur ágreiningur. Við erum ekki að deila á slíkum forsendum. Það kunna að vera einstaklingsbundnar mismunandi skoðanir á málinu en þetta á ekki að þurfa að vera ágreiningur stjórnmálaflokka, það á ekki að þurfa að vera það.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég vil leggjast á sveif með þingmanninum um að freista þess að ræða málin á þeim forsendum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar málið kemur til umræðu að lokinni 2. umr. um málið.