144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í lögum um Stjórnarráðið, nr. 115/2011, eru verkefni samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni tínd til. Með leyfi forseta stendur í fyrsta lið að nefndin eigi „að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu.“

Í skýrslu sem nefndin skilaði í maí 2012 kemur meðal annars fram að siðareglur eigi að hafa þann tilgang að skapa góðar venjur smátt og smátt og mikilvægt sé að þær örvi til umhugsunar og umræðna frekar en að þær innihaldi nákvæm fyrirmæli um rétta hegðun hverju sinni og þannig geti þær stuðlað að bættri menningu í stjórnsýslunni.

Það er auðvelt að setja reglur en það er erfiðara að sjá til þess að fólk tileinki sér reglurnar og þess vegna er svo mikilvægt að það séu allir með í því að fara eftir siðareglunum og vera með meginhlutverk þeirra í huga. Talað er um að hægt sé að nýta siðareglurnar og hafa þær bak við eyrað þegar verið er að búa til lagafrumvörp o.s.frv.

Núna finnst mér verið að gjaldfella hlutverk siðareglna í stjórnsýslunni yfir höfuð. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því og hvort það hafi komið fram í nefndinni hvers vegna menn telja nauðsynlegt að gjaldfella mikilvægi siðareglna í stjórnsýslunni.