144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæðan sé að hluta til sú að menn leggja ólíkan skilning í þetta starf. Annars vegar horfa menn á reglurnar sem slíkar, siðareglurnar, og hins vegar horfa menn til þess sem hv. þingmaður vísaði réttilega til, menningar í þessum efnum.

Það sem núgildandi lagabókstafur snýst um er nákvæmlega það vegna þess að þar er vísað í lifandi starf, að kalla saman félagasamtök, eins og hér segir, með leyfi forseta, „að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum“ o.s.frv. Síðar segir „að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum“, og leita eftir niðurstöðum fræðarannsókna o.s.frv.

Áherslan er á lifandi starf sem margir koma að. En skilningurinn sem liggur í lagatextanum eins og hann er lagður fyrir þingið núna er hinn dauði bókstafur, er siðareglan sem slík og úrskurðurinn sem nú á að koma úr forsætisráðuneytinu. Þetta er mismunandi skilningur á því verkefni sem núgildandi lög kveða á um. Þau kveða á um lifandi starf en ekki regluna sem slíka.