144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við tölum hér um Stjórnarráðið. Í ljósi þess að þetta frumvarp gengur meðal annars út á flutning stofnana hvert á land sem er og í rauninni bara hvert sem er, og að það eigi að vera á valdi ráðherra, langar mig að halda aðeins áfram með það sem ég byrjaði á í störfum þingsins í dag, þ.e. að ræða það mál sem við erum með í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar hafði ég bara tvær mínútur og þá er ekki hægt að fara yfir mjög margt. Það snýr ekki bara að Fiskistofu þó að við vitum að það hafi kannski dúkkað upp í framhaldi af því, heldur snýr það einmitt líka að þeim stjórnsýslueiningum sem verið er að stofna. Mig langar að vitna aðeins í bréf umboðsmanns Alþingis sem hann birti á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að starfsmaður Námsgagnastofnunar hafi kvartað yfir því sem snýr að kjörum hans vegna breytinga á skipulagi og starfsemi Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar. Í framhaldi af þeirri umfjöllun varðandi þennan starfsmann taldi umboðsmaður að ástæða væri til þess að spyrja spurninga hjá ráðuneyti menntamála um þessa tilteknu stofnun og ákvað þar með að hefja sjálfstæða rannsókn. Mér fannst athyglisvert það sem hann segir í lok þess bréfs, svo ég byrji bara á endanum, með leyfi forseta:

„Þau verkefni sem Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun fara með lögum samkvæmt og framkvæmd þeirra getur haft verulega þýðingu fyrir þá nemendur sem í hlut eiga og forsjáraðila þeirra sem og staðbundin yfirvöld skólamála. Hér skiptir því máli að Alþingi fái í umboði borgaranna fullnægjandi tækifæri til þess að taka afstöðu til þess á hvern veg það kýs að breyta núgildandi lögum áður en of langt er gengið í að undirbúa og framkvæma þann vilja stjórnvalda sem lýsir sér nú í fyrirliggjandi lagafrumvarpi.“

Síðan segir umboðsmaður í þessu bréfi, sem er upp á sex síður, að hann telji að miðað við þau svör sem hann hafi þegar fengið sé unnið að því að flytja starfsemina úr einu húsnæði í annað úr Reykjavík í Kópavog, að verið sé að flytja starfsemi Námsmatsstofnunar þar sem Námsgagnastofnun er til húsa. Þar segir einnig að fram komi að á vegum vinnuhóps fulltrúa starfsmanna Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar hafi verið undirbúin tillaga að skipuriti og starfsskipulagi Menntamálastofnunar. En svo segir í lok bréfsins að engar ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á högum starfsfólks Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar, enda sé gert ráð fyrir því í lagafrumvarpi um Menntamálastofnun að það verði ekki gert fyrr en frumvarpið sé orðið að lögum.

Umboðsmaður Alþingis dregur í efa eða hefur í það minnsta af því áhyggjur og telur að þau gögn sem hann hafi með höndum nú þegar þar sem þetta er allt saman rakið, leiði í ljós að það sem verið sé að gera taki algjörlega mið af áformaðri sameiningu stofnana þrátt fyrir að lagafrumvarp um þá breytingu og þar með lögbundin verkefni þessara stofnana hafi ekki enn hlotið samþykki á Alþingi. Þá er hann að vísa í flutning starfsmanna. Búið er að flytja þrjá starfsmenn úr ráðuneytinu, að ég held. Umboðsmaður vísar í því sambandi einnig til skipunar og verkefna nýrrar framkvæmdastjórnar og þess að sameiginlegur forstöðumaður tveggja stofnana muni verða forstjóri Menntamálastofnunar, gangi þau áform eftir. Umboðsmaður gagnrýnir jafnframt ferli málsins.

Við erum því að fjalla um grafalvarlegt mál hér. Umboðsmaður talar líka um lögmætisregluna sem eigi að endurspegla ákveðna verkaskiptingu milli löggjafarvaldsins Alþingis og framkvæmdarvaldsins og vill vekja athygli okkar á því að hér liggi fyrir lagafrumvarp þar sem ráðherra fái almenna lagaheimild til að kveða á um aðsetur stofnunar. Umboðsmaður telur að svo geti verið að þau atriði sem hann hefur talið hafi þýðingu ef flutningur starfsstöðvar Námsmatsstofnunar eigi að koma til framkvæmda áður en Alþingi hefur tekið afstöðu til málsins, þ.e. hann er ekki sannfærður um að það hafi í raun stoð í lögum að samþykkja menntamálastofnunarfrumvarpið fremur en fiskistofuflutninginn, ef ég skil hann rétt, ef það frumvarp sem við fjöllum um hér, um ráðherravaldið, nær ekki fram að ganga. Hann gagnrýnir stjórnsýsluferlið.

Mig langar að fara lauslega yfir spurningarnar sem umboðsmaður bar upp gagnvart ráðuneytinu. Hann óskar eftir að gerð verði grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli mennta- og menningarmálaráðherra taldi heimilt að gera samkomulag við forstöðumann Námsgagnastofnunar, og um þau efnisatriði sem þar koma fram og hver aðdragandinn var. Umboðsmaður vill líka fá að vita á hvaða lagagrundvelli störf þessara þriggja eða fjögurra starfsmanna úr mennta- og menningarmálaráðuneyti hafi verið flutt til Námsmatsstofnunar. Hann óskar eftir því að fram komi hvort þessir starfsmenn fari að einhverju leyti með ákvörðunarvald, þ.e. þeir starfsmenn sem fluttir voru úr ráðuneytinu og yfir í þessa stofnun, og þar með talið töku stjórnvaldsákvörðunar, sem lögum samkvæmt er hjá ráðuneytinu, og þá hvort þessar ákvarðanir séu teknar í nafni ráðuneytis eða Námsmatsstofnunar.

Ég benti formanni allsherjar- og menntamálanefndar á þetta álit í dag. Hún ætlaði að kynna sér það og ég tel að það skipti máli fyrir okkar vinnu í allsherjar- og menntamálanefnd að hér sé ekki farið fram með enn eitt málið sem er vafa undirorpið um hvort lagastoð er fyrir.

Mig langaði líka aðeins að velta upp hugmynd. Þegar við búum til svona stjórnsýslustofnanir, hvort sem þær eru innan ráðuneytis eða utan, erum við þá að veikja eða styrkja ýmist ráðuneyti eða stofnanir? Til dæmis í því tilfelli sem ég hef rakið hér gæti það hugsanlega verið þannig. Þegar verið er að flytja störf úr menntamálaráðuneytinu í stjórnsýslustofnun sem er staðsett utan ráðuneytis, er ekki verið að byggja upp þekkingu og mannauð innan ráðuneytis, þá er búið að færa hann út. Þá hugsar maður: Hvað er verið að styrkja? Er það bara þessi tiltekna nýja stofnun? Á þá á sama tíma að veikja ráðuneytið?

Síðan varðandi það sem talað er um í 6. gr. frumvarpsins og lýtur að endurskilgreiningu á stöðu stjórnsýslustofnunar varðandi kæruleiðirnar til úrskurðarnefnda þá finnst mér það ekki rökstutt með nægjanlegum hætti sem lagt er til. Ég er ekki að segja að úrskurðarnefndum megi ekki fækka, þær þurfa ekki endilega að vera eins margar eins og þær eru í dag, en ég er ekki sammála því sem hér kemur fram að ráðuneyti telji að með ákvæðinu opnist sá möguleiki í skipulagi ráðuneytis að við vinnu við kærumál og úrskurði vegna ákvarðana sem teknar eru af sérstökum stjórnvöldum sem undir ráðuneyti heyra sé fundinn staður í sérstakri starfseiningu innan ráðuneytis. Að það sé talið fullnægjandi til þess að mæta þessum armslengdarsjónarmiðum sem okkur er tamt að tala um, þ.e. fjarlægð frá ráðherra og rekstrinum og stefnumótun og öllu því sem þar liggur undir.

Ég hef því svolitlar áhyggjur af þeirri tilhneigingu að draga allt inn í ráðuneytið og hafa það hjá sér og minnka alla lýðræðisþátttöku okkar þingmanna í aðkomu að slíkum málum. Ég tel mig ekki geta samþykkt það.

Ég tek undir það sem hér kom fram áðan í ræðum og andsvörum hv. þingmanna á undan mér, ég held að það sé skynsamlegt málsins vegna að taka það inn í nefndina aftur til þess að reyna að sníða af því agnúa, því að ég held að þó að sumum þyki umræðan mikil hafi hún leitt af sér ýmislegt sem margir voru ekki búnir að gera sér grein fyrir áður. Ég styð það og vona að svo verði.