144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér sagði einhver ræðumaður áðan að þetta frumvarp væri miðstýringarfrumvarp, það safni valdi, og við sjáum það. Það er skrýtið að því meira sem við ræðum það þá kristallast hvernig frumvarpið gengur allt út á að draga vald að ríkisstjórninni og auka vald hennar, auka vald ráðherra til að ákveða það einn eða ein og sér að flytja eigi til stofnun. Og síðan það sem hv. þingmaður kom inn á með þessa stjórnsýslustofu eða hvað það er sem á að vera inni í ráðuneytinu. Fyrir okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá held ég að ég fari rétt með að það var útskýrt þannig að með því að geta stofnað þessa stofu í ráðuneytinu og hugsanlega taka fólk sem væri núna í úrskurðarnefndum og stofna einhverja stofu, það mundi sem sagt bæta við og auka mannauðinn, auka reynsluna í ráðuneytunum. En eftir því sem ég skil hv. þingmann og ég hafði nú reyndar skilið það líka þannig í 1. umr. um þessa menntamálaskrifstofu, að þá er verið að færa mannauð út úr ráðuneytinu. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Og er þá ekki verið að toga í eina áttina hér og aðra átt einhvers staðar annars staðar? Er ekki nauðsynlegt að við lítum á þetta skipulag stjórnsýslunnar (Forseti hringir.) í heild en ekki í bútum eins og hér virðist vera?