144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því einmitt að taka undir það sem hv. þingmaður talaði um áðan með þessar stjórnsýsluleiðir og stofnanir, hvernig það er. Það er líka þessi tilhneiging að toga ýmislegt út og útvista sem hefur fylgt þessari ríkisstjórn og mér hefur fundist vera að aukast. Tek einnig undir það að þetta er fyrir fólkið í landinu sem notar stjórnsýsluna. Það var kannski akkúrat það sem umboðsmaður benti á varðandi menntamálastofnun eins og hann segir, að þetta geti í rauninni haft verulega þýðingu fyrir nemendur og forsjáraðila þeirra og staðbundin yfirvöld skólamála. Þá skiptir máli að Alþingi fái í umboði borgaranna fullnægjandi tækifæri til að taka afstöðu til þess á hvern þann veg sem það kýs o.s.frv. eins og ég fór yfir áðan. Mér finnst þetta vera eitthvað sem frumvarpið tekur ekki almennilega til. Varðandi það að flytja starfsfólk á milli ráðuneyta og stofnana og annað slíkt, ég hef verið svona beggja blands í því. Ég er þó hlynnt auglýsingum, að allir hafi jöfn tækifæri til að sækja um stöður og ég hef horft til þess sem kemur frá launþegasamtökunum varðandi þau atriði um jafnræðissjónarmið.

Hins vegar skil ég líka tækifæri og þekkingu sem getur falist í því að hafa starfað í einhverjum tilteknum málaflokki og jafnvel hafa verið í forsvari fyrir einhverja tiltekna stofnun í langan tíma og fara svo í ráðuneytið eða eitthvað slíkt. Þá ætti líka sá aðili að vera afskaplega hæfur þegar kemur að auglýsingu ef starfið er auglýst, eða ég lít alla vega svoleiðis á að sá aðili ætti að hafa gríðarlega möguleika á að hljóta starfið í ljósi þekkingar sinnar.