144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega það sem er og er það sem við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar höfum gagnrýnt fyrst og síðast. Nefndin er búin að vinna þetta ágætlega og hefur fengið töluvert af gestum til að ræða þetta, en það breytir því ekki að það er kannski akkúrat það sem umboðsmaður Alþingis gagnrýnir, það er þetta ferli, bæði hvernig staðið var að ráðningu forstjóra og svo það, eins og hann segir og ég skil svona, að frumvarpið sem við fjöllum um verði í rauninni að vera forsenda þess að hitt gangi eftir, því að hann segir og vill vekja athygli okkar á því að fyrir Alþingi liggi lagafrumvarp til að ráðherra fái almenna lagaheimild. Og segir svo: „Þessi atriði kunna að hafa þýðingu ef flutningur starfsstöðvar Námsmatsstofnunar á að koma til framkvæmda áður en Alþingi hefur tekið afstöðu til málsins.“ Ég skil það sem svo að menn séu enn og aftur að fara einhverjar bakdyraleiðir, búa til eitthvað, eins og við höfum gagnrýnt mjög, og búið er að flytja starfsmenn úr ráðuneytinu. Það er búið að ráða forstjóra. Fólk er búið að koma sér að hluta til fyrir uppi í Víkurhvarfi, þannig að ekkert á nánast eftir að gera nema bara samykkja þetta.

Svör sem ráðuneytið gefur við fyrirspurn umboðsmanns duga ekki þar sem sagt er að þetta verði ekki að lögum fyrr en frumvarpið um Menntamálastofnun verði að lögum. Þeir eru svo sem að segja að engar ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á högum starfsfólks Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar, enda sé gert ráð fyrir því í lagafrumvarpi um Menntamálastofnun. Þetta passar bara ekki miðað við þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir, og við vitum að þessar breytingar hafa átt sér stað.