144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt af því sem ég hef miklar áhyggjur af í þessu frumvarpi, það er akkúrat þetta með siðferðislegu hliðina. Mér hefur kannski fundist í ljósi sögunnar og afreka þessarar ríkisstjórnar full ástæða til að hafa af því áhyggjur. Ég get ekki séð að hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, geti bara sjálfur lagt mat á siðferðisleg viðmið fyrir alla stjórnsýsluna eða eigin ráðherra og ríkisstjórnina. Mér finnst það mjög súrt til þess að hugsa, og í rauninni hvaða forsætisráðherra sem er. Ég held að enginn geti verið yfir það hafinn. Að einn maður eigi að leggja blessun sína yfir það hvað er í lagi og hvað ekki og meta viðmið í allri stjórnsýslu landsins, mér finnst þetta eiginlega galið, það er bara eina orðið yfir þetta. Það mætti velta því fyrir sér hver á svo að meta siðferðisleg viðmið hans sjálfs, forsætisráðherra, um stjórnsýsluna eða um störfin sem ráðherrar sinna og hann þá. Ég held að þetta sé ekki af hinu góða. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Þú getur fengið álit hjá einhverjum. Hann getur gert það ef hann kýs svo.

Það sem kemur fram um siðferðisviðmið í áliti meiri hlutans finnst mér stangast á. Talað er um siðferðisleg viðmið. Síðan segir í lokasetningu álitsins: „Meiri hlutinn telur að siðareglur, umræða og vinna með þær eigi að vera virkur þáttur í starfi ráðuneyta og stofnana.“ Þá lít ég þannig á einmitt að öll þau siðferðislegu viðmið, við erum auðvitað með einhver grunngildi, er hluti af því að vera virkur þáttur. Það er ekki bara gert einhvern veginn einu sinni, einhver lagabókstafur sem er svo ekki í einhverju hreyfanlegu ferli. Mér finnst meiri hlutinn tala í rauninni (Forseti hringir.) gegn því sem þeir segja svo í lokin.