144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Stundum hnignar lífinu. Ég flutti tillöguna um störf án staðsetningar. Þá var ég í stjórnarandstöðu. Hún hlaut hér töluvert mikla umfjöllun og að lokum í krafti samræðunnar komst þingið að því og eftir að hafa leitað ráða utan þingsins eins og við gerum jafnan, að þetta væri góð tillaga og hún væri líkleg til þess að bæta samfélagið, og hún var samþykkt.

Í þessu tilviki horfum við fram á þá valdfrekju sem birtist fyrst í því að hæstv. forsætisráðherra virðist hafa tekið ákvörðun um að flytja Fiskistofu til þess að bæta sinn eigin hag í kjördæminu sem hann situr fyrir á þinginu. Það var hann sem fór norður og tilkynnti um flutninginn, enginn hafði heyrt af því áður utan ríkisstjórnar. Þetta er dæmi um valdfrekju.

Með hruninu jókst og endurnýjaðist krafan um aukna samræðu um lýðræði, og það náði fram að ganga. Þingið náði meiri völdum eins og því ber gagnvart framkvæmdarvaldinu, en það er allt að fara aftur. (Forseti hringir.) Og er það ekki að speglast einmitt í þessu valdfrekjufrumvarpi sem hér er og þeirri frekju sem birtist í því að ætla að flytja allt vald í hendur eins ráðherra varðandi svo mikilvæg málefni?