144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heimildarákvæði til ráðherra um að flytja stofnanir var einmitt tekið úr lögunum og mér hafa fundist það svo fáránleg rök að segja einfaldlega að fyrst þetta var tekið úr lögunum og þess ekki getið þá eigi að setja það aftur inn. Það mundi stefna í ákveðnar stjórnskipulegar og lagalegar ógöngur ef við ætluðum að setja fullt af hlutum aftur inn í lög sem hafa verið teknir úr þeim með þessum rökum einum. Þetta finnst mér alveg stórfurðuleg nálgun.

Ég sé fyrir mér aðkomu þingsins að þessu þannig að þetta sé til dæmis sett fram sem þingsályktunartillaga. Það væri sambærilegt við margt annað sem við gerum í svona málum eins og samgönguáætlanir og byggðastefnan er líka þingsályktunartillaga; setja fram áætlun um það hvar opinber störf skuli staðsett, það getur verið smart að gera það þannig. Ég sé líka fyrir mér að ef menn vilja af einhverjum ástæðum og með góðum rökum flytja einstakar stofnanir út á land, að það sé líka gert með þingsályktunartillögu sem hér er rædd.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra hafi lært það af þessu fiskistofuhavaríi sínu að samfélagið er ekki þannig að hann geti sagt á fundi: Nú flytjum við Fiskistofu. Hæstv. ráðherra er ekki að fatta, held ég, hvaða gildi ferli hafa, ferli sem leiða til þess að sátt verði um niðurstöðu. Hann hefur greinilega ekki trú á því að það að fara í svoleiðis ferli, eins og til dæmis í gegnum Alþingi, geti á endanum sparað tíma.