144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þetta mál er allt saman hryggilegt. Þetta er vont fyrir Fiskistofu. Starfsmenn þar sögðu upp störfum út af því að þeir ætluðu sér ekki að flytja. Þetta var því högg á starfsemi Fiskistofu. Það voru vondar fyrirsagnir þarna fyrir Akureyri. Eins og það væri eitthvað hræðilega slæmt að flytja á Akureyri, í raun svolítið leiðinleg umræða um það. Auðvitað er fínt að búa á Akureyri. Menn misstu alveg sjónar af því, í þessum klunnaskap öllum og í þessum ömurlegu tilraunum til valdníðslu, að út af fyrir sig er það ágæt hugmynd, og hefur verið reifuð í góðum skýrslum og rakin, að hafa Fiskistofu á Akureyri. En það verður að gerast yfir einhvern tíma. Og ef við drögum jákvæðan lærdóm af þessu þá er hann sá að við verum að setja svona ferli í lög og helst ættum við að hafa þetta þannig að við reyndum að hafa einhverja heildarmynd undir líka. Í öllu falli er afleitt, og það ætti þetta dæmi að sýna, að svona ákvarðanir séu háðar duttlungum.