144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær leiðir að fara leið starfa án staðsetningar og að koma störfum fyrir á landsbyggðinni gegnum útibú hafa reynst ágætlega. Þó get ég þess að eftir að leiðin störf án staðsetningar var samþykkt á þinginu og menn fóru að hrinda henni í framkvæmd, þeirri stefnu sem var í þingsályktunartillögunni, rákust menn að vísu á torfæru. Í ljós kom að umboðsmaður Alþingis var í einu tilviki sammála manni sem kærði ráðningu á þeim grundvelli að honum hefði verið mismunað af því að hann bjó í Reykjavík. Það þarf með einhverjum hætti að reyna að greiða fyrir því í lögum að komið sé í veg fyrir að þetta sé nýtt beinlínis í þessum tilgangi. Það var hinn upphaflegi tilgangur. Þannig var það samþykkt á sínum tíma og allar umsagnir lutu að því að það væri í lagi. Þetta var eigi að síður niðurstaðan.

En við höfum dæmin, eins og hv. þingmaður talaði um; skattinn, Hafró og síðan Fiskistofu. Þessar þrjár stofnanir eru táknmyndir um það hvernig hægt er að flytja störf út á land án þess að það valdi einhverjum hamförum í lífi eins eða neins. En það var það sem við rákum okkur á 1993 og 1994 þegar sú ríkisstjórn, sem ég sat í þá, samþykkti vel unna skýrslu um að það ætti að flytja sjö stofnanir út á land og byrjað var á því, en rak sig strax á þetta grjót og sneri við. Og þá var beinlínis mótuð stefna í kjölfar þess að þetta væri leiðin. Þá þegar komust menn að þeirri niðurstöðu að Reykjavík væri ofsetin af opinberum störfum, og ég tek bara undir það. Mér finnst að landsbyggðin eigi skilið að njóta fleiri starfa og hægt er að koma þeim fyrir. Hins vegar er valdfrekjan svo mikil hjá núverandi valdhöfum að þeir vilja helst fara þá leið, alveg eins og þeir kjósa að stýra þinginu með því að láta kné fylgja kviði, taka ákvarðanir og hlusta í engu á aðra. Óþroskað lýðræði, segi ég. (Forseti hringir.) Þessir menn nota lýðræðið sem leiksopp og leikfang sitt til að koma fram vilja sínum án þess að spyrja nokkurn, hvorki kóng né prest.