144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem kemur í ljós í þessari umræðu. Undanfarið hafa menn notað í ræðum orðið „valdfrekja“ og mig langar að koma að því að þetta frumvarp lýsir því. Það er ekki bara í 1. gr. frumvarpsins heldur kemur það fram annars staðar líka, menn ætla að toga til sín valdið. Í grein um samhæfingarnefnd um siðareglur er auðséð að soga á allt vald inn í forsætisráðuneytið. Síðan er þessi grein um stjórnsýsluna; þar virðist það eiga að vera þannig að ráðuneyti, og ráðherrar sem eru æðstu menn þeirra, geti bara ákveðið það hver fyrir sig hvernig stjórnsýslunni er hagað og hver umgjörðin um hana er. Ég held að það sé ákaflega vont og sérstaklega fyrir fólkið í landinu sem á að njóta þessarar þjónustu.

Þær hafa líka komið til umræðu, og ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á að það gæti haft þau áhrif sem bent hefur verið á, þessar ráðherranefndir sem á nú að festa með lögum. Þær hafa verið settar upp og manni hefur kannski ekki fundist það óskynsamlegt að ráðherrar ráðgist við minni hópa fyrir ríkisstjórnarfundi. Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvaða skoðun hefur hún á því að lögfesta þessar ráðherranefndir um annars vegar fjárlög (Forseti hringir.) og hins vegar efnahagsmál?