144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta finnst mér góð spurning. Ég hef ekki komið inn á ráðherranefndir í ræðum mínum hingað til. Það er kannski af því að önnur atriði, sem mér fannst ansi stór, urðu ofan á. En ég hef reynslu af ráðherranefndum sem voru starfandi á síðasta kjörtímabili þó að þær væru ekki lögfestar. Þar var meðal annars ráðherranefnd um jafnréttismál, svo að dæmi sé tekið, og um efnahagsmál, ríkisfjármál. Þetta er umhugsunarefni af því að þarna er fyrst og fremst verið að huga að lögfestingu tveggja ráðherranefnda og þar með er verið að gera þeim málaflokkum sérstaklega hátt undir höfði eins og ég skil frumvarpið.

Ég hefði í fyrsta lagi talið eðlilegt að hver ríkisstjórn ákvæði hvaða ráðherranefndir hún vildi hafa starfandi, ef hún á annað borð vildi hafa slíkar nefndir starfandi. Það væri þá gert til að lyfta sérstökum málaflokkum sem ríkisstjórn hefði áhuga á að fengju ákveðið pólitískt vægi. Þannig hefði ég séð fyrir mér að ráðherranefndir gætu virkað í raun því að þarna er kannski fyrst og fremst verið að reyna að tryggja þverfaglegt samstarf ráðuneyta um tiltekna málaflokka sem ekki eiga heima í einu tilteknu ráðuneyti. Hvort það þurfi sérstaka ráðherranefnd um ríkisfjármál og efnahagsmál sem eiga heima í sama ráðuneyti núna — mér finnst ekki endilega ástæða til að lögfesta það neitt sérstaklega.

Mér finnst þetta hljóma þannig að hver ríkisstjórn eigi að geta sett niður hvort hún kjósi að hafa starfandi ráðherranefndir og geti þá nýtt það form til að lyfta ákveðnum pólitískum áhersluatriðum. Hér höfum við ekki þá hefð, eins og er víða annars staðar á Norðurlöndum, að ríkisstjórn raðar niður ráðuneytum á hverjum tíma. Við sjáum til að mynda ráðuneyti jafnréttismála og ráðuneyti sjálfbærrar þróunar ansi oft í ráðherramörgum ríkisstjórnum annars staðar á Norðurlöndum. Ráðherranefndir gætu til dæmis nýst í slíkum tilgangi. (Forseti hringir.) En maður spyr um þörfina á því að lögfesta slíkt ákvæði.