144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður veltir fyrir sér af hverju verið er að setja þessi lög, því að eitt og annað er tínt til til að breyta lögunum um Stjórnarráð Íslands. Ef ég skil hv. þingmann rétt telur hann að verið sé að afla lagaheimildar fyrir flutningi stofnana eins og Fiskistofu fyrst og fremst. Minni hlutinn í nefndarálitinu gagnrýnir þetta og telur að þetta sé óeðlilegt framsal á valdi löggjafans og ef löggjafinn er ekki með í ráðum sé meiri hætta á vandræðum og veseni og að það muni ekki stuðla að faglegum, ábyrgum og sanngjörnum vinnubrögðum ef duttlungar ráðherra ráða för þegar flytja á stofnanir til.

Auðvitað höfum við dæmið svo skýrt fyrir framan okkur hvernig staðið var að fyrirhuguðum flutningi Fiskistofu þar sem við sjáum það bara strax á þeirri ákvörðun og hvernig að því var staðið að það hefur veikt þá mikilvægu eftirlitsstofnun. Og fólkið sem gerir stofnunina að því sem hún er er náttúrlega í hálfgerðum sárum eftir það hvernig staðið var að því. Auðvitað er það í einhverri félagslegri stöðu sem breytist við flutninginn og fjárhagslegri þá kannski um leið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé bara nægilegt að falla frá þessum breytingum til að koma í veg fyrir svona vitleysu, hvernig staðið var að tilfærslu Fiskistofu, hvort það sé nóg eða hvort við þurfum einhvern veginn að styrkja lögin og búa til eitthvert ferli til að koma í veg fyrir svona mistök.