144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hóf ræðu sína — ég man það nú ekki alveg orðrétt — á því að segja að frumvarpið væri eins og búið væri að sópa upp alls konar molum í Stjórnarráðinu, sópa þeim öllum inn í eitt frumvarp. Hann stakk upp á því að kannski ætti bara að taka 1. gr. út og fara betur ofan í annað sem er í frumvarpinu. Ég er hv. þingmanni hjartanlega sammála um það að 1. gr. er umdeilanleg. Við erum öll sammála um það, held ég, að það er forkastanlegt hvernig að því var staðið. En hún er, ef ég má orða það svo, tiltölulega einföld. Við skiljum alveg hvað hún þýðir. En hinar greinarnar sem eru þarna inni, þar sem verið er að breyta Stjórnarráðinu og breyta stjórnsýslunni og fyrirkomulagi hennar, liggja ekki alveg svo ljóst fyrir. Ég held að það þurfi að skoða það miklu betur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að það hefur komið aðeins til umræðu hér í dag, um þessar tvær ráðherranefndir sem er lagt til að lögfesta. Eins og ég hef sagt fyrr í dag finnst mér sjálfsagt að ráðherranefndir séu til og fólk hafi samráð, en það sem kemur út úr þeim hlýtur svo að fara inn á ríkisstjórnarfundi. En bent hefur verið á það hér í umræðunni að mikill eðlismunur geti verið á því að setja upp ráðherranefndir, svona „attack“, ef ég má orða það þannig, eða lögfesta þær. Hvert er álit hv. þingmanns á því?