144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég orðaði þetta víst þannig að þetta væri svona eins og sópað hefði verið upp ýmsu beggja megin af göngum forsætisráðuneytisins vegna þess að hér koma inn nokkur algerlega efnisóskyld ákvæði stjórnarráðslaganna: 1. gr. um heimild til að flytja stofnanir, 2. gr. um skilgreiningu á því hvað skuli teljast mikilvæg stjórnarefni, 3. gr. um ráðherranefndir, 6. gr. um að heimilt sé að stofna undirstofnanir eða ráðuneytisstofnanir undir ráðuneytum, 7. gr. um hvernig forsætisráðherra skuli úrskurða þegar ágreiningur rís um verkaskiptingu milli ráðuneyta og túlkun forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna og 8. gr. úr allt annarri átt um siðferðileg viðmið innan Stjórnarráðsins. Þetta er það sem ég kalla einhvers konar uppsóp. Maður veltir því fyrir sér hvort sumt af þessu hafi verið látið fljóta þarna með til þess að þetta liti út fyrir að vera aðeins meiri pakki en bara 1. gr.

Varðandi ráðherranefndir þá tel ég í fyrsta lagi að það hafi þróast vel, alla vega eins og ég þekkti til þeirra. Ráðherranefndir skiptu miklu máli á síðasta kjörtímabili og sumar þeirra voru afar virkar og mæddi heldur betur á þeim, eins og ráðherranefnd um ríkisfjármál og efnahagsmál. Það var settur mikill kraftur í ráðherranefnd um atvinnumál til að reyna að koma hjólunum af stað og stuðla að nýsköpun og þróun og margt gott kom út úr því starfi. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki séð ástæðu til þess að skipa neina ráðherranefnd um atvinnuvegamál.

Er ástæða til að lögfesta þær öðruvísi en þannig að heimildin sé skýr og ramminn utan um þær ef þær starfa? Ja, í sjálfu sér kannski ekki vegna þess að ég eiginlega læt mér ekki detta í hug að það mundi hvarfla að neinni ríkisstjórn lengur að hafa ekki ráðherranefnd um ríkisfjármál og efnahagsmál. Ríkisfjármálin annars vegar bara vegna eðlis þeirra og mikilvægis og efnahagsmálin vegna þess að það er tengt við lög um fjármálastöðugleika og þau verkefni sem þar liggja o.s.frv.

Ég hef því ekkert á móti því að lögfesta þær, ég tel að þær eigi að vera, en ég er ekkert endilega segja að þess þurfi. Það er þó aldrei hægt að útiloka neitt og kannski fáum við (Forseti hringir.) einhvern tímann aftur, ef við erum ekki bara með það núna, svo ábyrgðarlausa ríkisstjórn að henni gæti dottið í hug að leggja þessar ráðherranefndir niður.