144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hefur hæstv. fjármálaráðherra velt því fyrir sér að hinn eilífi samanburður sem hann er að tala um er bein afleiðing þess að fólk er búið að upplifa gríðarlega kjaraskerðingu frá hruni? Sú kjaraskerðing er til komin vegna gengisfellingar íslensku krónunnar og hækkunar lána samhliða. Getur verið að staðreyndin sé einfaldlega sú að þjóðin sé ekki tilbúin að lifa við afleiðingar íslensku krónunnar og hinn margrómaða sveigjanleika þeirrar krónu?

Hæstv. fjármálaráðherra verður að horfast í augu við það að hann bætti einni stétt gengisfellingu krónunnar fyrir áramót, læknum. Það er ekki hægt að bæta einni stétt afleiðingar íslensku krónunnar. Það verður að axla ábyrgð af kjaraskerðingunni fyrir alla hópa, eðli málsins samkvæmt, því að aðrar stéttir, eins og geislafræðingar og hjúkrunarfræðingar, geta líka sótt sér atvinnu í öðrum löndum.

Er ekki tími til kominn að renni upp fyrir hæstv. fjármálaráðherra að það er ekki þjóðarsátt um gjaldmiðil sem kallar kjaraskerðingu, vaxtahækkanir og hörmungar yfir íslenska þjóð?