144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staða láglaunahópa.

[10:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu þeirra hópa í samfélaginu sem hvað lægstar tekjur hafa og vitna þá sérstaklega til öryrkja sem hafa verið að minna á sig núna í kjölfar nýgerðra kjarasamninga. Staða þeirra er afar þung, eins og hv. þingheimi og hæstv. ráðherra er auðvitað ljóst, og það nægir bara að nefna þá framfærslu sem þessir hópar hafa. Ef við skoðum tekjur öryrkja sem ekki fá sérstakar uppbætur þá eru þær í kringum 170.000 kr. á mánuði, sem er auðvitað gríðarlega lág tala og erfitt að lifa af. Við vitum að það er hópur sem er með þessa upphæð til framfærslu á mánuði og á í raun mjög fáa möguleika á því að komast út úr þeirri stöðu sem hann er í, því að það velur sér það auðvitað enginn að verða öryrki og það er fyrir marga því miður það hlutskipti að komast ekkert út úr þeirri stöðu aftur.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvernig sér hún fyrir sér almannatryggingakerfið? Verður ráðist í einhverjar bætur á stöðu þessa hóps í kjölfar kjarasamninga? Við þurfum auðvitað að horfa til þess að hlutverk okkar er að sjá til þess að allir geti tekið þátt í samfélaginu. Við sjáum það líka að með þessa framfærslu og þann kostnað sem fylgir því að lifa tryggjum við ekki öllum rétt til þátttöku í samfélaginu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér í þessum efnum, bæði í gegnum hækkun launa til öryrkja, en líka í gegnum aðrar aðgerðir?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í húsnæðismál því að fram kom hjá umboðsmanni skuldara að tekjuvandi er það sem háir flestum skjólstæðingum þess embættis og verulegur hópur þeirra eru leigjendur á markaði. Ég vil (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega: Er ekki þörf á róttækari aðgerðum en þegar hafa verið boðaðar? Ég nefni til dæmis (Forseti hringir.) þak á leigu sem er núna verið að taka upp í Berlín, víðar í Evrópu, til þess (Forseti hringir.) hreinlega að koma einhverri stjórn (Forseti hringir.) á húsnæðiskostnaðinn.