144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staða láglaunahópa.

[10:12]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Ég held að ég, hv. þingmaður og reyndar allur þingheimur séum sammála um mikilvægi þess að við höldum áfram að bæta kjör lífeyrisþega, kjör allra í samfélaginu, en ekki hvað síst þeirra sem hafa minnst á milli handanna.

Við erum í þeirri stöðu í dag að miðað við nýlega birtar upplýsingar hjá OECD er einna minnst fátækt á Íslandi í samanburði við önnur OECD-ríki, ég held að aðeins Danmörk og Tékkland séu í betri stöðu en við hvað það varðar. En það breytir því ekki að við þurfum að gera betur, alveg eins og hv. þingmaður talaði hér um.

Ég vil benda á nokkur atriði sem fram koma í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Hv. þingmaður nefndi sjálf húsnæðismálin. Ég hef ítrekað talað um hversu miklu máli það skiptir að við komum til móts við þau heimili sem minnst hafa á milli handanna. Þeir sem fá lægstu greiðslurnar í gegnum almannatryggingar eru svo sannarlega í þeim hópi. Þar skiptir aðgangur að húsnæði miklu máli, þannig að yfirlýsing okkar um að við ætlum að fara að byggja hér 2.300 félagslegar íbúðir á næstu fjórum árum mun að mínu mati hafa verulega mikið að segja hvað það varðar. Í yfirlýsingunni segir að við ætlum að stefna að því að húsaleigan verði þá ekki meira en 20–25% af tekjum þeirra sem fá þessar íbúðir, það er nokkuð sem ég held að skipti mjög miklu máli.

Það eru síðan tvö önnur atriði sem koma fram í yfirlýsingunni sem ekki hafa fengið jafn mikla athygli og ég vil nefna hér. Það er annars vegar upptaka á nýju greiðsluþátttökukerfi. Þeir sem eru veikir bera mestan kostnað í heilbrigðiskerfi okkar og kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur aukist, ekki hvað síst eftir hrun. Þar er verið að tala um að ríkið komi í auknum mæli með greiðsluþátttöku sinni til móts við þá sem bera mestan kostnað, eru veikastir. Einnig má nefna yfirlýsinguna um að ríkið muni halda áfram að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna, (Forseti hringir.) sem held ég að muni svo sannarlega koma til móts við þessa hópa.