144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

framhald þingstarfa.

[10:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég átti nú ekki við að það væri skortur á reykfylltum bakherbergjum sem ylli vandanum, heldur að í þessum sömu herbergjum eru sömu vandamálin leyst; áður voru þau full af reyk en síður í dag.

Ég hef nefnt að þingmál mættu gjarnan lifa. Mér sýnist, til þess að taka af allan vafa, að þar þurfi stjórnarskrárbreytingu. Ég hef nefnt þetta með forsetann. Að finna jafnvægi á milli minni hlutans og meiri hlutans, í því liggur kúnstin. Ég mundi fagna því mjög ef við tækjum áfram hér sérstaka umræðu um það. Svo skulum við hafa í huga að við þurfum ekki að finna upp hjólið í þessu. Það er fyrirkomulag hér í löndunum í kringum okkur sem gengur mun betur en það sem við höfum hér. Það felur meðal annars í sér að menn taka ákvörðun um að mál fái afmarkaðan og takmarkaðan tíma til umræðu. Það er ein forsenda þess að menn geti haldið starfsáætlun. Þegar menn geta ekki verið sammála um það hversu lengi á að ræða einstök mál þá skapast sú staða sem við erum með núna þar sem fjöldinn allur af málum hefur ekki fengið að komast á dagskrá. Ég ætla ekkert að kenna neinum um það, ég nenni ekki þeirri umræðu, hún mun engu skila, að fara í einhverjar sakbendingar. (Forseti hringir.) Það hafa allir spilað eftir þessum reglum og reynt að hámarka ávinning fyrir þau sjónarmið sem þeir standa fyrir með þessum leikreglum. Mín skoðun er sú að þetta fyrirkomulag sé algjörlega gengið sér til húðar.