144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það má segja að fyrstu skrefin hafi með formlegum hætti verið stigin með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga fyrir nokkrum dögum. Þar opnuðum við á það að hefja samstarf um efnahagsráð og við horfum til þess sem fyrsta merkisins um að hreyfing sé að komast á þessa hluti. En á endanum verður þetta að vera samstarfsverkefni. Þetta er samstarfsverkefni stjórnvalda, og þá á ég við ríki og sveitarfélög, og aðila vinnumarkaðarins, þeirra stéttarfélaga sem þar eru starfandi og vinnuveitenda.

Það sem er jákvætt í stöðunni í dag er að þær skýrslur sem vísað var til af hv. þingmanni sýna að það virðist vera sameiginleg sýn á að æskilegt sé að færa sig nær norræna módelinu. Það er sameiginlegur grunnur.

Vandinn við þá stöðu sem er í dag, í tengslum við þá kjarasamninga sem nú er verið að reyna að hnýta saman, er sá að of margir segja sem svo: Áður en við stígum þetta skref þá þurfum við fyrst að fá smáleiðréttingu, fyrst þurfum við að fá aðeins meira en hinir af því þeir hafa fengið meira en við á undanförnum árum, svo skulum við fara inn í þetta nýja módel, þetta nýja fyrirkomulag, þar sem við sameiginlega komumst að niðurstöðu um það hvert svigrúmið er og því er síðan skipt eftir því hvað um semst við samningaborðið.

Þessi staða er enn uppi. Við erum í viðræðum, eins og rætt hefur verið í þessum fyrirspurnatíma, við BHM og hjúkrunarfræðinga og aðra sem eru við samningaborðið að fara fram á töluvert meiri hækkanir á kauptöxtum sínum en til dæmis var samið um á almenna markaðnum með þeirri röksemdafærslu að þeir eigi eitthvað inni, enn sé eitthvað óleiðrétt. Ef menn ætla að ganga þá braut til enda þá er það eins og langavitleysa, það mun aldrei verða búið að ganga frá síðustu leiðréttingunni. Aldrei. Við þurfum að tala um þetta opinskátt og viðurkenna að það sé svo eftirsóknarvert að breyta fyrirkomulaginu að einhvers staðar verði að gefa eitthvað eftir.