144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði er það mikill misskilningur hjá hv. þingmanni og ég bið hann endilega að færa ítarlegri rök í seinna andsvari sínu fyrir því að lögfræðiálitinu hafi verið sagt að farið væri á svig við lög með einhverjum hætti. Eina sem þar kemur fram er það sem hefur lengi verið vitað og liggur fyrir í öllum slíkum verkefnum, þ.e. að það þarf síðan auðvitað að fá fjárheimildir hjá þinginu í gegnum fjárlög. Annað kom nú ekki fram í þessu lögfræðiáliti en að ef breyta á algjörlega um notkun á því húsnæði sem um er að ræða þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir þess vegna. En svo er ekki. Áfram verður skólahald í þessu húsnæði í Hafnarfirði, á þessu sviði, þ.e. í iðnnáminu og það verður öflugra en áður var. Við vitum öll um þann vanda sem Iðnskólinn í Hafnarfirði hefur lengi verið í og sem ekkert hefur verið gert í, en hér er lagt upp með að efla stórefla iðnnám í Hafnarfirði. Það verður haldið áfram með það. En það er að sjálfsögðu rétt sem fram kemur í lögfræðiálitinu, að málið mun síðan koma til þingsins þegar er gengið verður frá fjárheimildum. Þá hefur hv. þingmaður öll tækifæri til þess að fjalla um þetta mál.

Hvað varðar iðn- og verknám á næsta ári eða næstu árum vil ég gera grein fyrir því, eins og ég hef reyndar gert hér áður, að staðið hefur yfir viðamikið samstarf og samvinna á milli okkar í menntamálaráðuneytinu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Alþýðusambandsins, BSRB og kennaraforustunnar um breytingar á því sviði. Þar hafa vinnuhópar verið að störfum mánuðum saman og er farið að glitta í niðurstöðurnar hvað það varðar. Mikið samstarf hefur verið þar á milli og er augljóst að það þarf að gera eitthvað. Við getum ekki verið með það fyrirkomulag áfram sem verið hefur til langs tíma, sem hefur skilað okkur allt of fáum nemendum inn í þetta kerfi.

Í þriðja lagi hvað varðar fjárveitingar eins og þær hafa verið hér, eins og þær voru í hruninu vil ég benda á að gripið var til þeirra aðgerða af hálfu síðustu ríkisstjórnar að draga um 2 milljarða út úr framhaldsskólakerfinu og rekstri framhaldsskólakerfisins. Á sama tíma voru opnaðir nýir skólar en ráðist var í fjölmörg ný verkefni önnur sem ekki komu beint að rekstri skólanna eins og til dæmis Nám er vinnandi vegur (Forseti hringir.) sem nýttist ákveðnum hluta framhaldsskólanna. (Forseti hringir.) Þar voru settir inn gríðarmiklir fjármunir. Það var rými til þess sem ég hefði talið skynsamlegra að nota með öðrum hætti.

En vissulega er það rétt, virðulegi forseti, verið er að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi. Það mun fækka nemendum og árgangarnir eru líka að minnka. Það er eðlilegt að við (Forseti hringir.) sjáum þá færri nemendur í kerfinu.