144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans.

[10:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er einmitt þetta með að það þarf fjárheimildir og það þarf samþykktir til þess að leggja niður stofnanir, breyta húsnæði og þarna er verið að ráðstafa líka húsnæði sem sveitarfélögin eiga að hluta. Ákvörðunin er síðan tekin af ráðherra einum eftir stutta vinnu án nokkurs samráðs eða umfjöllunar og síðan á að vinna úr því eftir á. Það er það sem verið er að gagnrýna og er ekki til fyrirmyndar á einn eða neitt hátt. Ég hef heyrt ræðu hæstv. ráðherra um að það eigi að stórefla, stórefla, stórefla, en ég hef aldrei séð hvað á að gera til þess. Það er rétt að verið er að vinna að skýrslu varðandi starfsnámið og iðn- og verknámið, en hvað á að gera í haust? Það er komin stytting á námi til stúdentsprófs og fram kom á fundi sem við áttum m.a. með skólameisturum á Norðurlandi vestra, þ.e. í kjördæminu, að það er nánast reiknað með því að skólarnir þar verði reknir á þeim lágu fjárveitingum sem hæstv. ráðherra var að lýsa áðan frá fyrrverandi ríkisstjórn, það á ekkert að hækka þær. Samt á að borga hærri kennaralaun og hærra fyrir nemendaígildi, en það á að skera niður nemendafjöldann og þjónustuna að öðru leyti.

Það eru ekki nein töfrabrögð sem geta leyst þetta (Forseti hringir.) án þess að leggja inn aukna peninga þannig að falleg orð fleyta okkur ekki mjög langt. Það er allt (Forseti hringir.) í upplausn á landsbyggðinni (Forseti hringir.) vegna tilviljunarkenndra geðþóttaákvarðana ráðherra.