144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans.

[10:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það eru engar töfralausnir til. Þess vegna menn að grípa til aðgerða. Við stöndum frammi fyrir því og það er ekkert hægt að breyta því til dæmis að það eru minni árgangar, það er fækkun í árgöngunum. Það er líka staðreynd að með því að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi fækkar nemendum, en um leið eru líka tækifæri til þess að hækka framlagið á nemanda að meðaltali.

Ég vil benda á að árið 2012, held ég að það hafi verið, voru meðalframlögin á verðlagi ársins 2014 um það bil 890.000 kr. á nemanda í kerfinu. Við erum þó komin með það upp í rétt rúmlega eina milljón, 1.000.100 kr. tæplega, það munar um það. Það munar vegna þess að þar með er orðið meira svigrúm til þess að reka skólana.

Hvað varðar síðan sameiningu þeirra skóla sem hér voru nefndir, Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði, vil ég bara benda hv. þingmanni á það og hann getur þá skoðað það sjálfur, að það eru fjölmörg fordæmi fyrir því hvernig staðið er að sameiningu slíkra stofnana. Það hefur alltaf legið fyrir og er ekkert nýtt í því, ekkert óvenjulegt, ekkert óeðlilegt, að síðan kemur alltaf til kasta Alþingis hvað varðar fjárheimildir í gegnum fjárlög, en það er ekki með öðrum hætti en alltaf hefur verið, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.