144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Willum Þór Þórsson bendir einmitt á að rætt hafi verið um þetta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vildi að ég hefði aðgang að þeim umræðum. Ég er varamaður í nefndinni og hef ekki getað fylgt þessu máli eftir þar, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur gert það. Það hefði verið frábært ef ég og allir aðrir, núna eftir að hv. þingmaður nefnir þetta, og áður þegar við vorum að undirbúa okkur undir umræðu um þetta mál, hefðum bara getað farið á internetið og fundið þessar upptökur. Ókei, þingmenn segja: Já, við verðum að geta talað saman án þess að vera með pólitík í því og svona. En hvað með gestina sem koma? Þetta eru gestir sem eru að veita umsagnir um það hvernig þingmenn eigi að haga lagasetningu í landinu og við fáum ekki að sjá það. Ég sem þingmaður get ekki einu sinni fengið að sjá það. Það er mjög slæmt. Við þurfum að opna þessa nefndafundi. Þá getum við verið miklu betur undirbúin. Ég eltist ekki við nefndarfundi, eins og hv. þingmaður veit, ég eltist við málefni og ég get ekki gert það þarna.

Varðandi vald og ábyrgð. Það er verið að færa vald inn á miðjuna á sama tíma er verið að eyðileggja, sparka út, óháða nefnd sem á að fylgjast með að þessu valdi sé beitt af ábyrgð. Það er það sem verið er að gera. Það er ekki gott.