144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hreinlega veit það ekki, ég hef ekki sett mig inn í þennan vinkil á þessu, það mundi taka mig ofboðslega langan tíma að setja mig inn í stjórnsýsluna eins og hún leggur sig. Ég mun einhvern tíma gera það, einhvern tíma mun ég þekkja það vel. Ég þekki það ekki í dag en það sem ég lagði aftur á móti áherslu á að gera í sambandi við þetta frumvarp — ég er ekki í nefndinni sem um það hefur fjallað, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur haft þann bolta — var að skoða siðareglurnar. Ég kafaði ofan í kjölinn á því hvað það varðar.

En varðandi upplýsingarnar sem þingmaðurinn nefnir — nákvæmlega, það sem skiptir máli, og það kemur fram í frumvarpi stjórnlagaráðs, er að upplýsingar séu settar fram af stjórnvöldum á þann hátt að þær séu skiljanlegar, skýrar o.s.frv.

Um leið og þú opnar upplýsingar jafnvel þó að þú gerir það ekki þannig, þó að þú gerir það þannig að menn geti unnið með þær, þá mun fólk í samfélaginu, sem hefur áhuga á því, byrja að vinna með þær upplýsingar og setja þær fram á skýran og aðgengilegan hátt fyrir fólk. Það hefur alltaf gerst þegar gögn hafa verið opnuð og mikil verðmæti hafa þá skapast.

Munurinn á „data“ eða gögnum og upplýsingum er sá að gögnin eru ekki skiljanleg. En um leið og þú ert búinn að taka gögnin, raða þeim upp og setja þau fram á einhvern hátt þá ertu búinn að skapa skilning og skilningur er ofboðslega verðmætur. Þetta gerist og hefur alltaf gerst.

Varðandi það sem nefnt var hér áðan, ég vildi bara grípa þann bolta, varðandi upptökur úr Stjórnarráðinu, þá held ég að það sé gott að það sé tekið upp, það eru alltaf strategískar ákvarðanir sem þarf að taka o.s.frv. Þú getur ekki sýnt það strax, en upptökurnar eiga að vera til staðar. Það gildir einu hvort taka þarf á ráðherraábyrgð sem varðar hegningu eða að þjóðin fái einhverjum árum síðar að sjá hvernig menn voru að stjórna — í Bandaríkjunum er miðað við 40 ár, það gæti verið styttri tími, en að þetta liggi frammi alla vega þannig að við getum lært af því þegar fram í sækir.