144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að ég fari rétt með hvað varðar þessar hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundi, sem ég var nú aldrei samþykk sjálf, að þær áttu að vera faldar í Þjóðskjalasafni í 30 ár, hægt að kalla það fram í sakamálum en annars átti það að vera geymt í 30 ár.

Hv. þingmaður talar um siðareglur og nú skilst mér, í því rugli sem hér er í gangi varðandi þær eins og svo margt annað, að það sé ekki alveg klárt hvort siðareglur séu í gildi fyrir ríkisstjórnina eða ekki, hvort siðareglurnar frá síðustu ríkisstjórn séu enn í gildi eða ekki. Hver er skoðun þingmannsins á því? Mín skoðun er sú að þeir sem eiga að fara eftir siðareglum þurfi að koma að þeim, þeir þurfi að samþykkja þær sjálfir. Það sé ekki hægt að láta þær erfast frá manni til manns vegna þess að þetta er eitthvað sem hver og einn þarf að samþykkja fyrir sig. Þess vegna, eins og hv. þm. Ögmundur Jónsson hefur sagt, er smíðin við siðareglurnar miklu meira virði en smíðisgripurinn sjálfur.