144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég var nú reyndar ekki að tala um 6. gr., en það er ágætt að vekja athygli á henni; ég var bara alls ekki að tala um 6. gr. (WÞÞ: 6. gr. …) — Já. Ég var sérstaklega að tala um siðareglurnar, að það sé gríðarlega mikilvægt að siðareglurnar verði ekki háðar duttlungum eins aðila eða einnar skrifstofu, heldur séu þær í formfestu sem lýtur að því að það sé ákveðinn grunnur. Það er ákveðinn grunnur, við erum öll sammála um það hvað er siðlegt, alla vega á hverjum áratug og stundum öldum saman. Síðan fer að skapast mjög mikill vafi um siðareglur þegar þær eru ekki formfestar strax eins og hefur verið núna. Siðareglur voru settar fyrir forsætisráðuneytið á síðasta kjörtímabili og svo hefur maður ekki getað fengið skýr svör um hvort þær siðareglur séu í gildi eða hvort aðrar siðareglur séu að koma. Það er mjög vont fyrir stjórnsýsluna.

Ég er mjög hlynnt því varðandi siðareglur að formfesta þær á þann hátt sem hefur komið fram í tveimur frumvörpum sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur lagt fram, sem er lögbinding á sumum þeim þáttum er lúta að siðlegu framferði í opinberum störfum; mér finnst mjög mikilvægt að við tökum það hér til umræðu í samhengi við alla þessa umræðu um siðareglur. (Forseti hringir.) Siðareglur einar og sér, ef það fylgir því engin afleiðing að framfylgja þeim ekki, eru bara skrumskæling á siðferði.