144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svörin og verð að taka undir það að ég vil gjarnan sjá ýmsar breytingar, en ég er samt ekkert sérstaklega hrifin af breytingum breytinganna vegna; það þarf að vera einhver tilgangur, við þurfum að vera að færast einhvern veginn í átt að betra stjórnkerfi.

Mig langar í þessu seinna andsvari mínu að koma aðeins inn á siðareglurnar því að ég held að þar sé líka um gríðarlega mikilvægt mál að ræða, einmitt vegna þess að traust og tiltrú almennings á Íslandi til stjórnvalda er ekki sérlega mikið. Ég held að þá sé bara vægt til orða tekið. Mér finnst það slæmt. Ég held að það geti haft slæmar afleiðingar, bæði til skamms tíma og eins til langs tíma, því að ég er hrædd um að þetta geti grafið undan trú fólks á lýðræðinu. Þess vegna finnst mér rosalega mikilvægt að við ræðum það hvernig við getum öðlast þetta traust.

Ég er alveg sammála því að siðareglur séu ekki lög. Traust á stjórnsýslunni krefst virkra aðgerða til þess að tryggja og sýna að unnið sé gegn hvötum til spillingar. Þá er ekki nóg að allir séu bara sammála um að spilling sé vond.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að þess vegna sé slæmt að færa það til eins manns, þ.e. hæstv. forsætisráðherra, að fara með það vald að túlka og gefa leiðbeiningar um siðareglur. Verðum við ekki að hafa þetta á breiðari grunni en að fela þetta í hendurnar á einum manni, hversu mikla mannkosti sem hann annars gæti haft?