144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það var mjög skemmtileg og merkileg vinna sem fram fór í allsherjarnefnd þegar við fórum í gegnum stjórnarráðslögin. Það var mjög mikil vinna. Ég minnist þess að nefndin hafði miklar og alls konar skoðanir og ég minnist þess líka að við vorum, fannst mér, stundum í togstreitu við embættismennina, embættismennirnir vildu hafa þetta einhvern veginn, við vildum hafa þetta öðruvísi. Við þurftum svolítið að slást fyrir því og náðum auðvitað okkar fram. Stundum var sagt að við værum að fara of geyst, sem embættismönnunum fannst ekki nógu íhaldssamt væntanlega, eða þeir vildu halda einhvern veginn öðruvísi utan um þetta. Ég man einmitt þegar ég hef verið að rifja það upp núna þegar þetta frumvarp kom inn, þá var mér ofarlega í huga togstreitan sem nefndin var í við embættismennina, sem voru náttúrlega að svara fyrir frumvarpið eins og það var lagt fram. Þess vegna fannst mér ýmislegt sem kom fram í þessu frumvarpi vera það að nú væru embættismennirnir að ná vopnum sínum á ný.

Um hræsnina í málflutningnum sem var um stjórnarráðsfrumvarpið þá, jú, vissulega, það var náttúrlega barnaleikur, því þá var sagt að forsætisráðherra ætti að ráða einhverju í staðinn fyrir allt ráðuneytið og menn sögðu að verið væri að færa allt á hendur forsætisráðherra. En núna erum við með forsætisráðherra sem beinlínis tekur til sín með lagasetningu að færa stofnanir, að gera þetta, ráða siðareglum. (Forseti hringir.) Þetta er náttúrlega bara hlægilegt, virðulegi forseti, eða nota mætti verra orð.