144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil nefna fyrst hlutverk, það er gott orð. Ég er sammála því að það að vera alþingismaður er meira hlutverk kannski en venjuleg vinna. Við erum ekkert laus úr vinnunni þó að menn segi: Eruð þið ekki komin í sumarfrí? Ég meina, það er þetta alltaf, þú hættir ekkert að vera alþingismaður þótt þú farir í sumarfrí. Það er þannig. Þú mætir kannski á færri fundi en ella.

Ég held samt sem áður að þetta hafi alltaf verið svona. Þetta er hlutverk sem við veljum okkur sjálf. Ég held út af fyrir sig að tækniþróunin hafi svo sem breytt því hvernig hægt er að vinna, hægt er að vinna heima hjá sér og annað slíkt, en ég held að það hafi alltaf verið, að minnsta kosti svo langt sem ég man að þá hefur það alltaf verið hlutverk að vera alþingismaður frekar en að vinna venjulega vinnu ef svo er að orði komist. Ég er alveg hjartanlega sammála þingmanninum að það er gamaldags að ætla að rífa upp heila stofnun. Þar fyrir utan er það óþarfi. Það er óþarfi eins og þingmaðurinn bendir á. Það er hægt að hafa starfsstöðvar hér og þar og fólk getur þá átt heima þar sem það vill.

Virðulegi forseti. Þessi aðferð er líka svo mikil óvirðing og að sú aðferð sem núna er verið að kalla eftir sé bara á hendi eins ráðherra. Það er svo mikil óvirðing við fólk og fjölskyldur þess að flytja það á milli staða. Hér hefur verið sagt, af því að sumir hættu hjá Fiskistofu, að eitt af stóru áföllunum í lífi fólks sé að missa vinnuna. Það er líka annar streituvaldur í lífi fólks, það er að flytja á milli staða, jafnvel þó að fólk geri það af frjálsum og fúsum vilja, hvað þá þegar það er tekið upp með offorsi.