144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Það sem ég vil að gerist þegar svona er uppi — og ég ítreka að ég er fylgjandi sveigjanleika, mér finnst hann góður, og ég er líka gagnrýninn á ýmislegt sem margir kalla faglegt við ráðningar, en ég vil skoða hinn huglæga þátt þar líka. Ég er jafnframt fylgjandi því að þegar svona er uppi þá þurfi ópersónulegur aðili að koma líka að máli og það er fulltrúi stéttarfélaganna.

Þegar verið er að segja fólki upp störfum eða veita því áminningu hefur það verið þannig, í samningum og í hefðum, að einstaklingurinn á rétt á því að fulltrúi stéttarfélagsins sé þar með honum.

Ég gæti til dæmis séð það fyrir mér að við slíkar aðstæður yrði aðkoma stéttarfélaganna tryggð, að slíkri einstaklingsbundinni samræðu sem tryggði þá, eða stuðlaði alla vega að því, við getum aldrei tryggt neitt endanlega í þessu lífi, að réttarstaðan væri jöfn, að menn væru að ræða þetta á jafnréttisgrundvelli. Ef það væri gert þá er ég ekkert ýkja ósáttur við þennan texta, ég er það ekki.

Mér finnst markmiðið vera rétt og gott ef haldið er á málum á réttmætan hátt.