144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja: Mikið svakalega var þetta góð ræða sem ég flutti á síðasta kjörtímabili; alveg eins og talað út úr mínum munni, enda flutti ég hana sjálf, stend við hana og er enn sömu skoðunar. Hv. þm. Róbert Marshall veit alveg í hvaða tilefni þessi orð féllu. Þær voru til umræðu nánast allt síðasta kjörtímabil, þessar breytingar á Stjórnarráðinu. Ekki var nóg með að ríkisstjórnin færi fram með endurskoðun á lögunum heldur voru öll heiti ráðherra tekin úr lögunum, vald fært til og var það meðal annars gert til að taka valdið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna ESB-málsins og færa það undir utanríkisráðherra. Það voru ýmsar slíkar tilfærslur sem farið var í á síðasta kjörtímabili sem ég talaði um að væri foringjaræði.

Við vitum alveg að í lögunum var þáverandi forsætisráðherra gert mjög hátt undir höfði og ég tel að ráðherranefndirnar, af því að það var líka rætt um þær, hafi verið í skötulíki; ég segi það alveg, þær virkuðu alla vega ekki í bankahruninu eins og ég fór yfir í ræðu minni. Viðskiptaráðherra, sem bar þó ábyrgð á bönkunum, var bara haldið fyrir utan þetta, það var ekkert hringt í hann. Hann var bara heima í stofu og formaður Samfylkingarinnar og þáverandi utanríkisráðherra héldu um þá tauma. Nefndirnar virkuðu ekki þá og þess vegna fagna ég því að enn frekari lagastoð sé skotið undir ráðherranefndir í þessu frumvarpi.

Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar, hún er ekki fjölskipað vald hér á landi. Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki. En með því að skjóta sterkari stoðum undir ráðherranefndirnar og það samráð sem ráðherrar hafa sín á milli þá er heildaryfirsýn yfir málefni landsins sterkari og betri. Þá gerist það vonandi ekki aftur sem gerðist hér í bankahruninu, að fagráðherrann var látinn sitja heima.