144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur nú kannski ekki fylgst alveg nógu vel með umræðunum. Þetta snerist um það hvort núverandi ríkisstjórn teldi sig bundna af þeim siðareglum og væri að fara eftir þeim eða ekki. Svörin í byrjun voru óljós og umboðsmaður skrifaði sérstaklega til að reyna að fá þetta á hreint og tengdist náttúrlega máli sem við öll þekkjum að ráðherra varð að lokum að segja af sér vegna embættisathafna sinna í þessari ríkisstjórn.

Siðareglurnar voru góðar. Það var lögð í þær vinna á síðasta kjörtímabili og þær reyndust vel og sú ríkisstjórn var farsæl hvað þá hluti varðar. Þess vegna er alveg prýðilegt að núverandi ríkisstjórn fari að þeim siðareglum en hún hefði bara einfaldlega átt að staðfesta það í byrjun að hún gerði það og sæi ekki ástæðu til að endurskoða þær reglur. Ef hún hefði nú gert það í fleiri tilvikum, bara ákveðið að fylgja leiðsögn fyrri ríkisstjórnar, þá værum við betur stödd.

En ég ætla að spyrja hv. þingmann — hún nefndi að með þeirri heimild til að flytja stofnanir sem hér væri verið að opna þá gæti til dæmis félagsmálaráðherra flutt Jafnréttisstofu frá Akureyri til Reykjavíkur: Var hv. þingmaður að leggja það til? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að Jafnréttisstofa megi ekki vera áfram á Akureyri?