144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé að reyna að komast í kvöldfréttirnar með þessu. Ég var beinlínis að lýsa því að þessi umræða í stjórnarráðsmálinu öllu hefði verið á þá leið að ekki mætti færa neitt frá Reykjavík út á land. Það er alveg einkennilegt því að landið er sex kjördæmi, þrjú hér á höfuðborgarsvæðinu og þrjú úti á landi, og umræðan er öll í þá veru að ekki megi flytja neitt af Stór-Reykjavíkursvæðinu út á land.

Ég var einfaldlega að koma með hina hlið málsins og sagði í ræðu minni að í augnablikinu myndi ég eftir Jafnréttisstofu á Akureyri sem hægt væri að flytja til Reykjavíkur. Ég var að benda á tvö sjónarmið og sýna fram á að ekki er um að ræða einstefnubreytingartillögur hvað það varðar að færa ríkisstofnanir. Það eru ríkisstofnanir úti á landi sem hægt væri að flytja á höfuðborgarsvæðið sýnist viðkomandi fagráðherra að það sé hentugra, betra eða á einhvern hátt til sparnaðar fyrir ríkið.

Ég var að snúa við þessari þreytandi leiðinlegu umræðu að það megi ekkert fara út á land sem er nú þegar til staðar í Reykjavík. Og segi ég það sem þingmaður Reykvíkinga.