144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hún notaði sinn tíma hér til að fara yfir það að leggja eigi niður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið, ég held að hún heiti það. Það er hins vegar merkilegt sem kom fram í ræðu þingmannsins, þ.e. að þessi nefnd hafi verið skipuð og skipunartími hennar hafi runnið út haustið 2013, held ég að hafi komið fram. Nú erum við í júní 2015 og það segir mér að næstum því tvö ár eru liðin og hæstv. forsætisráðherra hefur látið hjá líða að skipa þessa nefnd.

Það var eitt sem mér fannst út af fyrir sig merkilegt. Það er ýmislegt sem menn gera ekki þó að þeir eigi að gera það lögum samkvæmt og það eru engin siðferðileg viðmið um það. Siðareglur eru ekki bundnar í lög en þetta er lagatexti og hæstv. forsætisráðherra er bara alveg sama, hann skipar ekki þessa nefnd. Síðan hef ég heyrt það, þegar talað er um að það eigi að nema þetta úr lögum, að ekki sé ástæða til þess að hafa þess nefnd vegna þess að hún hafi ekki haft svo mikið að gera.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Finnst henni það ástæða fyrir því að afnema nefnd, sem fjallar um það hvernig opinberir starfsmenn eigi að koma fram, að það hafi ekki verið svo mikið að gera; að þá sé bara rétt að setja það eitthvert niður í skúffu og hugsa ekki meira um það?