144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna, ég tel að hún sé mjög góð. Mundum við segja að við ættum að hætta að hafa slökkvitæki í stigagangi vegna þess að það hefur aldrei kviknað í íbúð? Ég tel að okkur mundi aldrei detta það í hug. Þetta er öryggisráðstöfun, þetta eru leiðbeiningar, sem sem betur fer, segi ég nú bara, þarf sjaldan að grípa til. En hins vegar þegar eitthvað kemur upp á þar sem vafi leikur á um mál verðum við að hafa öryggisnet sem grípur okkur. Ég tel að samhæfingarnefndin sé þannig öryggisnet; hún er alltaf að vega og meta málin, hún setur fram viðmið og er svo til aðstoðar ef eitthvað gerist.

Það geta alveg komið upp erfið mál í forsætisráðuneytinu eins og hvar annars staðar í hinu íslenska stjórnkerfi. Þá tel ég að það sé afar slæmt að það sé karlinn í brúnni, þ.e. sjálfur forsætisráðherrann, sem eigi að gefa ráð. Jafnvel þó svo hann þurfi að ræða það við umboðsmann Alþingis eða Ríkisendurskoðun finnst mér það bara engan veginn nóg. Við eigum að sjálfsögðu að fagna því að við höfum lítið þurft á nefndinni að halda. Þannig er það bara með flest góð öryggistæki, við notum þau mjög sjaldan en við viljum hafa þau í lagi þegar á þarf að halda.