144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að ýmsir hafa talið ójöfnuð og misskiptingu í þjóðfélaginu vaxandi vandamál langar mig til að benda á staðreyndir sem koma fram á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að tekjur á Íslandi dreifðust jafnar milli fólks árið 2014 en áður hefur sést í lífskjararannsókn stofnunarinnar sem fyrst var framkvæmd árið 2004. Mælieiningar sem notast er við er fimmtungsstuðull og Gini-stuðull, þeir mæla dreifingu tekna, og hafa þessir stuðlar ekki mælst lægri í lífskjarannsókninni.

Fimmtungsstuðullinn sýnir að tekjuhæsti fimmtungurinn var með þrisvar sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en stuðullinn var hæstur árið 2009 eða 29,6. Gini-stuðullinn væri 100 ef einn einstaklingur hefði allar tekjur samfélagsins en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Nýjasta árið, 2013, býður upp á alþjóðlegan samanburð, sýnir að Ísland var með lægsta Gini-stuðul og fimmtungsstuðul í Evrópu á eftir Noregi. Þá kemur einnig fram að árið 2014 er hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun það lægsta sem sést hefur í lífskjararannsókninni.

Þá ætla ég líka að leyfa mér að vitna í orð Gylfa Zoëga prófessors í hagfræði, en hann skrifar í Vísbendingu 10. mars, með leyfi forseta:

„Hagstjórn hefur gengið vel undanfarin missiri, þó að leynt fari. Atvinna hefur aukist, kaupmáttur launa sömuleiðis, skuldir heimila og fyrirtækja minnkað, hlutfall skulda ríkis af landsframleiðslu er á niðurleið. Skuldir sveitarfélaga dragast saman, afgangur er á viðskiptum við útlönd, erlendar skuldir lækka. Með peningastefnunni hefur dregið úr sveiflum í þjóðarbúskapnum. Verðbólga er sáralítil og hefur haldist undir markmiði undanfarið rúmt ár.“

Auðvitað má alltaf gera betur. En þegar staðreyndir eru skoðaðar er greinlega margt á réttri leið í þjóðfélaginu sem leitt er af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.