144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:36]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill af þessu tilefni segja að reglan er einfaldlega sú að fyrstur kemur, fyrstur fær. Menn raðast inn á mælendaskrána undir liðnum um störf þingsins í þeirri röð sem þeir tilkynna áhuga sinn á að taka þátt í þeim umræðum.

Forseti getur hins vegar ekki skýrt hvers vegna hv. þingmaður var númer 16 af þeim sem óskuðu eftir því að taka til máls að þessu sinni. Að öðru leyti vill forseti segja það að hvað varðar þátttöku einstakra þingflokka í þessum lið þekkjum við að það er mjög breytilegt milli þessara umræðna. Stundum tala fáir úr tilteknum flokkum, stundum fleiri. Það er tilviljun sem ræður því eða einhverjar aðstæður sem forseti kann engin skil á að öðru leyti.

Að öðru leyti heldur hér áfram umræðan um fundarstjórn forseta. Forseti vill árétta að hér er um að ræða umræðu um fundarstjórn forseta og vonast til þess að að minnsta kosti sé ekki ætlunin að taka upp með neinum hætti neina efnislega umræðu sem átti sér stað áður og fyrr í umræðunni um störf þingsins.